Um ferðina
Löndin í Indókína hafa að bjóða ótrúlegt úrval landslags og lita - suðrænna skóga og hrísgrjónaakra, fjallstinda og saga þeirra er merkileg og oft harmþrungin. Löndin vöru nýlendur Frakka og Breta áratugum saman og háðu blóðuga sjálfstæðisbaráttu langt fram á 20. öldina. Uppgangur er nú í efnahag landanna og stefnt er á blandað hagkerfi. Þetta er tveggja landa ferð: Laos og Myanmar, við förum m.a. í siglingu og ferðumst með járnbrautarlest, auk þess að kynnast sögu og lifnaðarháttum heimamanna sem eru þekktir fyrir mikla gestrisni. Búddatrú er viðtekin og eru þau trúarbrögð mjög friðsöm, æðruleysi og yfirvegun er eitt það mikilvægasta. Saga landanna endurspeglast í áhrifum nýlendutímans og aðdráttarafli hinar friðelskandi búddamenningar - eiginleika austrænnar speki og visku.